Nornirnar eftir Roald Dahl voru að fá alveg glymrandi góða umsögn og fimm stjörnur í Lestrarklefanum. Í niðurlagi umsagnarinnar segir:
„Nornirnar eru hrottalega, hræðileg bók með litríkum lýsingum, skemmtilegum myndum og núna gefin út í nýrri þýðingu. Dahl hefur einstakt lag á að skrifa skemmtilega sögur þar sem börn eru aðal söguhetjurnar. Sögurnar eru einfaldar og auðlesanlegar fyrir krakka á öllum aldri.“
Nornirnar hafa líka verið á metsölulista Pennans-Eymundsson.
Gaman er að geta þess að Hollywood er nú með í bígerð nýja stórmynd, sem byggð er á Nornunum. Nornirnar hafa verið færðar á hvíta tjaldið áður og í þeirri mynd, sem var frumsýnd árið 1990, lék Angelica Huston æðstu aðalnorn en í nýju myndinni verður það Anne Hathaway, sem leikur æðstu aðalnorn. Í síðustu viku var síðan tilkynnt að Octavia Spencer mun leika ömmu söguhetjunnar.
Leikstjóri nýju myndarinnar um Nornirnar verður Robert Zemeckis og hyggst hann vera söguþræði Roalds Dahl trúrri en Nicholas Roeg, sem leikstýrði fyrri myndinni. Í þeirri mynd var endinum breytt frá bók Dahls og búinn til Hollywood endir. Roald Dahl var allt annað en sáttur við þá breytingu og sagði Roed algerlega hafa misskilið tilganginn með bókinni og sögunni. Vildi hann helst ekkert láta bendla sig við myndina. Það er ánægjulegt að nú skuli saga Roalds Dahl fá að' njóta sín óspillt á hvíta tjaldinu.
Nornirnar fást í öllum betri bókabúðum og eru á tilboði í verslunum Pennans-Eymundsson.