top of page

Heilsíðuviðtal við þýðanda Roalds Dahl í Morgunblaðinu í dag


Efnismikið, fróðlegt og skemmtilegt viðtal við Sólveigu Sif Hreiðarsdóttur, þýðanda Roalds Dahl á Íslandi, birtist í Morgunblaðinu í dag. Tilefni viðtalsins er að á dögunum komu út í endurnýjaðri útgáfu tvær fyrstu bækurnar eftir Roald Dahl, sem Kver gaf út. Þetta eru Georg og magnaða mixtúran og BFG, sem komu fyrst út árin 2015 og 2016 en hafa verið ófáanlegar um skeið.


Sólveig segir frá því hvernig það bar að að hún fór að þýða þessar skemmtilegu barnabækur, en Roald Dahl er á sviði barnaheimsbókmenntanna ekki minni jöfur en Astrid Lindgren. Fram kemur að hún fékk réttinn á Georg og mögnuðu mixtúrunni eftir lengt ferli, þar sem hún þurfti m.a. að senda út efni, sem hún hafði þýtt áður ,og meðmælabréf. Þá kom sér vel að vera í meistaranámi í þýðingarfræði við Háskóla Íslands og geta sýnt texta, sem þýddur hafði verið í tengslum við námið. Þegar leyfið loks fékkst var það með því skilyrði að hún þyrfti einnig að þýða BFG vegna þess að væntanleg var stórmynd frá Disney og Steven Spielberg . BFG kom svo út á íslensku skömmu áður en myndin var heimsfrumsýnd m.a. á Íslandi. Sem kunnugt er lék Ólafur Darri Ólafsson í myndinni.

Sólveig segir frá því í viðtalinu að það hafi verið meira en að segja það að þýða BFG og henni hafi nær fallist hendur þegar hún hófst handa við verkið. Ástæðan er ekki síst sú að risinn góði talar all sérstakt tungumál, sem Roald Dahl bjó til og heitir gobbelfunk. Aðdáendur Simpsons-sjónvarpsþáttanna kannast við þetta tungumál því höfundar Simpsons gengu í smiðju Roalds Dahl þegar þeir lögðu Ned Flanders í munn orðið „Scrumdiddlyumptious“. Það orð kemur fyrir í BFG og fleiri bókum Roalds Dahl. Þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu Roalds Dahl, árið 2016, var orðið formlega tekið inn í Oxford English Dictionary.



Comentários


bottom of page