top of page
Roald Dah við skriftir og Soffía úr BFG situr hjá honum.

ROALD DAHL, SAGNAMEISTARINN MIKLI

ÆSKA ROALDS DAHL

Roald Dahl fæddist 13. september 1916 i Llandaff, Wales, sonur Sofie Hesselberg og Harald Dahl, sem bæði voru norsk að uppruna. Harald var ekkill og tveggja barna faðir þegar hann kynntist Sofie. Þau Sofie og Harald eignuðust fjórar dætur og einn son. Roald fékk gælunafnið „eplið“ þar sem hann var augasteinn móður sinnar.

Mikil áföll riðu yfir fjölskylduna árið 1920, fyrst þegar systir hans Astri lést, 7 ára að aldri en banamein hennar var botnlangabólga. Tveimur mánuðum síðar dó faðir hans úr lungnabólgu, en sagan segir að hann hefði dáið úr sorg yfir dótturmissinum. Sofie, móðir Roalds var ekki á flæðiskeri stödd þar sem Harald hafði hagnast vel á skipaflutningum.

Norsku ræturnar voru augljósar á heimilinu. Börnin voru tvítyngd, töluðu bæði ensku og norsku, og sumar- og jólafríum eyddi fjölskyldan í Noregi. Þar hlustuðu börnin á þjóðsögur um tröll og aðrar furðuverur en glöggt má sjá í bókum Roalds að hann þekkti vel til dularfulls heims þjóðsagna. Roald las mikið af skáldsögum sem barn, en hann var ekki sérlega góður námsmaður, þrátt fyrir miklar væntingar móðurinnar. Skáldsögurnar sem hann las voru ekki námsefnið. Hann var sendur í heimavistarskóla, Repton í Derbyshire, til að undirbúa hann undir háskólanám. Skólum var stjórnað af hörku og jafnvel sadistískum hvötum yfirvaldsins. Roald hafði alltaf verið einstaklega uppátækjasamur og var honum refsað harðlega fyrir það; hann fékk að finna fyrir staf skólameistarans og átti hann erfitt með að fyrirgefa hýðingarnar. Einnig virtust refsingar vera tilhæfulausar og það átti hann erfitt með að skilja, sérstaklega þar sem áhersla í skólanum var á kristna trú og bænir. Nemendurnir beittu einnig ofbeldi, þeir voru með ýmsar óskráðar reglur eins og tíðkaðist í heimavistarskólum á þessum tíma og fengu nýnemar sérstaklega að finna fyrir þeim. Roald slapp við ofbeldi af hálfu samnemenda, enda var hann um 2 metrar á hæð og afar góður í íþróttum. Hann var kappsamur og keppti fyrir nokkur íþróttalið á vegum skólans, ásamt því að spila golf. Hann varð mjög góður ljósmyndari og afar sterkur bridds-spilari.

STARFSFERILL

 

Að loknu námi í Repton vildi móðir hans senda hann til Oxford eða Cambridge, en Roald mátti ekki heyra á það minnst. Hann réði sig til olíufyrirtækisins Shell árið 1934 með það fyrir augum að vera sendur til Afríku. Hann þurfti að sætta sig við að vinna um sinn í Englandi en fjórum árum seinna var hann sendur á vegum fyrirtækisins til Dar es Salaam í Tanzaníu. Á þessum tíma hafði heimsstyrjöldin brotist út og breski flugherinn (R.A.F.) var á höttunum eftir nýjum orustuflugmönnum. Roald sótti um starfið og var ráðinn, en sú ákvörðun átti eftir að vera örlagavaldur í lífi hans. Eftir þjálfun var hann sendur til Egyptalands. Þar brotlenti vél hann flugvél af gerðinni Gloster Gladiator, í eyðimörkinni nálægt Alexandríu. Hann slasaðist illa í andliti, baki og mjöðm, en náði að skríða út úr vélinni áður en eldurinn læstist í bensíntankinn og sprengdi flugvélina. Roald þurfti að fara í miklar skurðaðgerðir og við tók margra mánaða bataferli, en hann náði sér aldrei alveg.

Vegna slyssins var hann sendur til Washington og sagt er að þar hafi hann starfað sem njósnari, ásamt félaga sínum Ian Fleming, síðar höfundi James Bond. Lífið í Washington var ævintýralegt, en þar umgekkst hann fólk eins og Roosevelt forsetahjónin, Ernest Hemingway, Walt Disney og rithöfundinn C.S. Forrester, sem einmitt hvatti Roald til að fara að skrifa. Roald fór að ráðum hans og fljótlega fóru sögur hans að birtast í virtum tímaritum og síðan bækur.

EINKALÍF

 

Árið 1953 giftist Roald Hollywood-leikkonunni Patricia Neal. Patricia var virt leikkona og átti hún eftir að vinna Óskarsverðlaun fyrir aðalhlutverk sitt sem Alma Brown í kvikmyndinni Hud, árið 1964. Þau Patricia eignuðust fimm börn. Árið 1960 lenti sonur þeirra, Theo Matthew, þá fjögurra mánaða, í bílslysi í New York, þegar leigubíll keyrði á barnavagn sem hann var í. Theo varð fyrir áverka á heila sem olli þrýstingi, en tæknin sem læknavísindin höfðu þá yfir að ráða var afar áhættusöm. Í samráði við taugasérfræðing og vökvafræðisérfræðing, fann Roald, ásamt tveimur öðrum einstaklingum, upp ventil sem tekur þrýsting af heilanum. Þessi ventill heitir Wade-Dahl-Till (WDT) ventillinn. Þessi snilldar ventill hefur  bjargað fjöldanum öllum af börnum og enn í dag er byggt á sama formi ventils. Þremenningarnir þáðu aldrei þóknun fyrir uppfinningu sína.

Annað og alvarlegra áfall reið yfir fjölskylduna árið 1962, þegar elsta dóttir þeirra, Olivia Twenty fékk mislinga og lést í kjölfarið. Roald varð talsmaður bólusetninga í kjölfarið, enda hefði bólusetning bjargað lífi dóttur hans, hefði það verið á boðstólum en bóluefni gegn mislingum kom fyrst á markað í Bandaríkjunum ári eftir dauðsfall dóttur hans. Enn eitt áfallið dundi á fjölskyldunni árið 1965, þegar Patricia fékk alvarlegt heilablóðfall, þá ólétt af yngstu dóttur sinni, Lucy. Hún var í dái í þrjár vikur. Hún þurfti að læra að ganga og tala á nýjan leik. Roald studdi hana með ráðum og dáð og að lokum fór hún aftur að leika og lék allt fram til ársins 2009. Við þetta áfall breytti Roald um áherslur og fór að sinna heimilinu ásamt ritstörfunum. Þau Patricia skildu árið 1983. Roald giftist Felicity Ann Crosland. Felicity stjórnar dánarbúi Roalds á myndarlegan hátt og hefur vakið athygli fyrir að vera fylgin sér gagnvart framkvæmdastjórum í Hollywood.

RITHÖFUNDURINN

Fyrsta barnabók Roalds, að undanskilinni The Gremlins, kom út árið 1961, en það var bókin James and the Giant Peach. Bókin varð að metsölubók og um leið varð nafn Roalds Dahl þekkt. Þremur árum seinna kom út Charlie and the Chocolate Factory. Fleiri frægar bækur eftir Roald Dahl eru The BFG, George’s Marvellous Medicine, Matilda, Fantastic Fox, The Witches og margar fleiri mætti nefna. Eftir Roald liggja 19 barnabækur og hafa kvikmyndir verið gerðar eftir nokkrum þeirra. Árið 2016 var kvikmyndin The BFG í leikstjórn Stevens Spielberg, framleiðandi Dreamworks, frumsýnd. The BFG stendur fyrir The Big Friendly Giant sem á íslensku útleggst sem Bergrisinn Frómi Góði. Leikarinn áststæli Ólafur Darri Ólafsson fer einmitt með hlutverk eins risans í myndinni, en þeir eru alls níu, vondu risarnir.

ENDALOK

 

Roald Dahl lést í Oxford, 23. nóvember 1990, 74 ára að aldri, eftir stutt veikindi. Hann var aðdáendum sínum harmdauði. Roald skildi eftir sig víðfemt höfundarverk og segja má að galdurinn í fantasíukenndum sögum hans felist í því að sífellt bætast við ungir aðdáendur.

Safn tileinkað Roald Dahl sem nefnist Roald Dahl Museum and Story Centre í Great Missenden, Buckinghamshire (heimabæ höfundar). Safnið er rekið sem góðgerðarsjóður og hefur það að markmiði að hvetja börn til lestrar, ritunar og virkja sköpunargleði þeirra. Þar eru þrjú gallerí, með gnægð af skemmtiefni og fróðleik, þar sem margt er að sjá og gera, til að mynda er þar ritkofi Roalds Dahl. Miðað er við að börn á aldrinum 6 til 12 ára hafi gagn og gaman af heimsókn í safnið og er það opið almenningi og skólahópum allt árið.

Frekari upplýsingar um góðgerðarsjóði Roalds Dahl má finna á opinberri vefsíðu rithöfundarins: http://www.roalddahl.com

——

VEFSÍÐA:

http://www.roalddahl.com

bottom of page