top of page

BFG

Updated: Mar 29, 2020


Bókin BFG (e. The BFG) eftir Roald Dahl var fyrst gefin út á Íslandi í júlí 2016, í þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur. Útgáfa bókarinnar var samtímis frumsýningu kvikmyndarinnar The BFG í leikstjórn Stevens Spielberg, Disney framleiddi. Í myndinni leikur Ólafur Darri Ólafsson tvö hlutverk, hann er einn risanna og kokkur hjá drottningunni.

BFG er fangamark Bergrisans fróma góða (e. Big Friendly Giant), en hann vill láta kalla sig BFG. BFG er draumaveiðari og hann blæs fallegustu draumunum sem hann finnur inn um svefnherbergisglugga barna. Kvöld eitt verður Soffía, 8 ára stúlka, vitni að þessu. BFG varð strax ljóst að hún hefði séð hann og er honum nauðugur einn kosturinn að taka Soffíu með sér til Risalands. Í Risalandi býr BFG einn í helli ásamt löngum röðum af krukkum sem innihalda drauma. Í Risalandi búa einnig níu aðrir risar, en þeir eru ekki góðir og vænir eins og BFG. Þeir eru illvígir risar, sem fara á kreik á kvöldin og finna mannperur um allan heim til að háma í sig. Þeir halda að manneskjur séu kallaðar mannperur, einhver misskilningur hjá þeim (e. human beans byggt á enska hugtakinu human beings). BFG étur aldrei mannperur, heldur bara garúrkur, sem er einhvers konar grænmeti ekki ólíkt agúrkum, en smakkast alveg hræðilega.

Soffíu líst í fyrstu ekkert á blikuna þegar risinn tekur hana með sér en smám saman áttar hún sig á því að hann er ekki slæmur. Hún bjó á heimili fyrir munaðarlaus börn og var alveg til í að sleppa undan forstöðukonunni Kráku, sem alltaf var að hnýta í hana. Risinn talar afskaplega slæmt mál og Soffía tekur það að sér að kenna honum að tala rétt og fallegt mál. Þegar Soffía fréttir af því hvað risarnir taka sér fyrir hendur á hverju kvöldi, verður hún bæði reið og hissa. Í kjölfarið ákveða þau Soffía og BFG að stöðva þetta mannperuát risanna og upphefst spennandi atburðarrás þar sem drottningin í Bretlandi leikur stórt hlutverk. Og nú má ekki segja meir!

BFG eftir Roald Dahl er fyndin, spennandi og bráðskemmtileg bók þar sem höfundurinn leikur sér að tungumálinu en hann bjó til sérstakt tungumál kallað Gobblefunk.

Ætluð lesendum á aldrinum 6 til 12 ára.​

Miðstöð íslenskra bókmennta veitti útgáfu bókarinnar þýðingastyrk.

Félag starfsfólks í bókaverslunum tilnefndi bókina í annað sæti yfir best þýddu barnabækur ársins 2016.

bottom of page